Reykherbergjum á LSH verður lokað á næstunni

Ekkert liggur fyrir um dánarorsök ungrar konu sem lést á Landspítala – háskólasjúkrahúsi (LSH) í vikunni en stúlkan hafði verið sjúklingur á smitsjúkdómadeild spítalans.

Sprauta fannst við hlið stúlkunnar þegar að henni var komið á laugardaginn en Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn segir ekki vitað hvaða efni hafi verið í sprautunni. Rannsóknin sé ekki á því stigi að nokkur njóti stöðu grunaðs, enda liggi banameinið ekki fyrir.

Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild, segir fátt benda til þess að lyfjunum hafi verið stolið af spítalanum.

Nokkuð hefur verið rætt um möguleikann á að fíkniefnum sé komið inn á spítalann í gegnum reykherbergi hans en ekki er vitað hvort konan varð sér úti um lyfin og sprautuna eftir þeirri leið. Jóhannes M. Gunnarsson, lækningaforstjóri LSH, segir starfsfólk lengi hafa grunað að fíkniefna sé neytt í reykherbergjum og þar geti gestir hitt sjúklinga. Til stendur að loka reykherbergjum spítalans í Fossvogi og við Hringbraut vegna áætlunar um að spítalinn verði reyklaus.

Breyta á aðgengi að þeim reykherbergjum sem eftir verða, á geðdeild, Kleppsspítala, öldrunardeild og endurhæfingardeild, til að koma í veg fyrir aðgang utanaðkomandi. Aðspurður hvort honum finnist ástæða til að spítalinn efli eftirlit til að koma í veg fyrir neyslu og viðskipti með fíkniefni segist Jóhannes telja að stíga verði varlega til jarðar hvað það varðar. "Menn hafa velt fyrir sér fjölgun myndavéla en ég hef persónulega ekki trú á að það breyti mjög miklu. Við verðum líka að fara afar varlega hvað varðar friðhelgi sjúklinganna." Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert