Landlæknir segir í greinargerð um þau veikindi, sem komu upp meðal starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun í apríl, að rússneskur læknir sem starfar þar á vegum Impregilo hafi farið út fyrir heimildir sínar þegar hann afhenti verktakafyrirtækinu ljósrit af listum yfirlæknis á Kárahnjúkum yfir sjúklinga sem leitað höfðu á heilsugæslustöðina þar.
Hins vegar séu áhöld um það, hvort Impregilo hafi ekki borið að fá þessar grundvallarupplýsingar þegar opinberlega komu fram ásaknar sem fyrirtækið taldi rangar eða ýktar.
Fram kemur í greinargerð Matthíasar Halldórssonar, landlæknis, að Vladimír Stanovko hafi langa læknisreynslu á vegum Impregilo í öðrum löndum en hafi ekki lækningaleyfi hér á landi. Hann starfi því á ábyrgð yfirlæknisins á Kárahnjúkum en þiggi laun sín frá Impregilo.
Vladimir upplýsit að hann hafði látið Impregilo í té ljósrit af nafnalistum yfirlæknisins án vitundar þess yfirlæknisins. Á listunum hafði verið breitt yfir nöfn og kennitölur starfsmanna, en einungis komið fram svokallað Batch númer, sem er persónurekjanlegt. Við hvert númer var skráð einkennalýsing, svo sem niðurgangur eða óþægindi í loftvegum.
Matthías hefur eftir Vladimír, að hann hafi gripið til þessa ráðs þegar fregnir voru komnar í fjölmiðla um bráðaveikindi nær 200 starfsmanna Impregilo, en stjórnendur félagsins hafi ekki haft aðrar upplýsingar um fullyrðingar Þorsteins Njálssonar, yfirlæknis en fram hafi komið í fjölmiðlum. Hann hafi talið óhjákvæmilegt að kanna þegar hvar umræddir starfsmenn hefðu verið við störf svo bregðast mætti við ef fullyrðingar í fjölmiðlum hefðu við rök að styðjast.
„Landlæknir gerði Vladimir Stanovko ljóst að hann hafi farið út fyrir heimildir sínar. Á hitt er svo að líta að vinnuveitandi hefur ríka hagsmuni af því að vita um heilsutjón, sem starfsemi hans kann að hafa valdið starfsmönnum, svo að unnt sé að gæta öryggis þeirra," segir í greinargerð landlæknis.
Þar kemur einnig fram, að persónuupplýsingarnar, sem fram komu á listunum, geti tæplega talist mjög viðkvæmar, enda fái fyrirtækið að sjálfsögðu upplýsingar um þá sem séu frá vinnu vegna veikinda. Áhöld séu um hvort fyrirtækinu hafi ekki borið að fá þessar grundvallarupplýsingar þegar opinberlega komu fram ásaknar sem fyrirtækið taldi rangar eða ýktar.
Landlæknir hafði óformlega samband við forstöðumann Persónuverndar, sem ekki gerði athugasemdir við þessa niðurstöðu embættisins.