Samband ungra sjálfstæðismanna hefur sent frá sér ályktun þar sem segir að sá atburður sem varð í Reykjavík um síðustu helgi, þegar lögregla stöðvaði með valdi spilakeppni, sýni að þörf er á því að fjarlægja úr íslenskum lögum heimildir stjórnvalda til þess að hafa afskipti af einstaklingum sem stunda starfsemi eða afþreyingu sem sé öðrum skaðlaus, jafnvel þótt einhverjum kunni að þykja hún siðferðislega ámælisverð.
„Undanfarið hefur þeirrar tilhneigingar orðið mjög vart að stjórnvöld á Íslandi beiti valdi sínu til að þvinga siðferðismat sitt upp á samfélagið. Borgarstjórn Reykjavíkur beitti valdi sínu til þess að fæla löglega spilastarfsemi frá fyrirhuguðu starfssvæði, Alþingi hefur sett ofstækisfull lög sem leggja sektir við því að veitingahúsaeigendur leyfi gestum sínum að reykja innandyra; og nú síðast greip lögregla til aðgerða gegn hópi manna sem sat og spilaði á spil gegn þátttökugjaldi," segir í ályktun SUS.
Þar segir að íslenskir stjórnmálamenn hafi borið gæfu til þess að draga smám saman úr valdi sínu í íslensku viðskiptalífi á undanförnum árum og þessi þróun hafi reynst ákaflega happadrjúg. Eitt mikilvægasta verkefni löggjafans nú um stundir sé að vinda ofan af forneskjulegri forræðishyggju sem víða sé til staðar í íslenskum lögum.