Nýr veffréttamiðill fyrir Norðurland opnaði í dag. Gréta Bergrún Jóhannesdóttir er ritstjóri miðilsins og Davíð Sigurðsson er framkvæmdarstjóri. Norðurlandið.is lét verða sitt fyrsta verk að fjalla um stöðu erlendra verkamanna á norðausturhorni landsins í viðtali Aðalstein Baldursson forystumann Verkalýðsfélags Húsavíkur og nágrennis.
Fram kemur í viðtali Norðurlands.is við Aðalstein að hann fái, sem forystumaður verkalýðsfélags mörg mál inn á sitt borð. Í fyrra hafi hann til dæmis hjálpað erlendri konu að flýja heimili, þar sem hún var látin vinna myrkranna á milli og sofa í þvottahúsinu.
Verkalýðsfélag Húsavíkur gerði afar sérstæðan samning við sveitarfélagið, þar sem það tók að sér samfélagsþjónustu fyrir útlendinga. „Við erum að hjálpa fólki að leita sér læknis, hjálpa þeim að skilja, aðstoða ef það kemur til útfarar, að fá dvalarleyfi og einnig er töluvert um að við hjálpum þeim að panta fargjöld. Þetta er eini samningurinn í þessa veru sem hefur verið gerður í Íslandi,“ segir Aðalsteinn í viðtalinu.
Fjölmargir erlendir verkamenn starfa á Norðurlandi. Meirihluti þeirra eru Pólverjar, sem koma til Íslands í leit að betra lífi, en einnig vinna margir útlendingar á Kópaskeri þegar sláturvertíðin byrjar og á sumrin í ferðaþjónustunni.