Ánægja með baráttu gegn sjóræningjaveiðum

Einar K. Guðfinnsson með sjávarútvegsráðherrum Grænlands og Færeyja.
Einar K. Guðfinnsson með sjávarútvegsráðherrum Grænlands og Færeyja.

Auk Íslendinga og Grænlendinga sóttu Færeyingar, Norðmenn, Kanadamenn, Rússar og fulltrúar Evrópusambandsins fundinn. Aðalefni hans voru aðgerðir gegn ólöglegum og óábyrgum fiskveiðum. Á fundinum lýstu ráðherrarnir sérstakri ánægju með þann árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn ólöglegum fiskveiðum í Norður-Atlantshafi síðustu misseri. Það sem af er árinu hefur t.a.m. ekki orðið vart við veiðar sjóræningjaskipa á Reykjaneshrygg en vertíðinni þar lýkur innan skamms.

Veiðar sjóræningjaskipa hafa verið viðvarandi vandamál undanfarin ár. Áætlað hefur verið að þau hafi veitt a.m.k. 20.000 tonn af úthafskarfa á Reykjaneshrygg á síðasta ári.

Aðgerðir sem gripið hefur verið til á vettvangi svæðabundinna fiskveiðistjórnunarstofnana, NEAFC (Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndin) og NAFO (Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunin), hafa þannig skilað umtalsverðum árangri.

Sjávarútvegsráðherra Íslands lagði ríka áherslu á að til að sporna enn frekar við ólöglegum veiðum og viðskiptum með ólöglegan afla, vinni ríkin sérstaklega að því að skip þeirra fari í einu og öllu eftir settum reglum um veiðar og tilkynningar um afla. Hann lagði einnig áherslu á að á vettvangi Fiskimálanefndar FAO (Matvæla- og landbúnaðarstofnunar S.Þ.) verði metin og þróuð viðmið til að leggja dóm á hvernig ríki framfylgja skyldum sínum gagnvart skipum sem sigla undir fána þeirra. Uppfylli fánaríki ekki þessi viðmið verði hugsanlega heimilt að grípa til aðgerða gegn viðkomandi skipum á úthafinu. Fundurinn samþykkti að ríkin beiti sér fyrir að þessi vinna hefjist og bauðst Kanada til að halda slíka ráðstefnu.

Ráðherrarnir voru sammála um að mikilsvert væri að skoða hvernig hægt sé að sporna við viðskiptum með afla af ólöglegum uppruna. Einnig lýsti fundurinn ánægju með þá vinnu sem fyrirhuguð er á vettvangi FAO og lýtur að samræmdum alþjóðlegum hafnríkisreglum, sem miða m.a. að því að koma í veg fyrir löndun afla af ólöglegum uppruna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert