Sex í yfirheyrslu eftir fjöldaárás

Sex manns eru nú í yfirheyrslu hjá lögreglu vegna fjöldaárásar í íbúð við Hjaltabakka í Reykjavík í nótt. Einn maður liggur höfuðkúpubrotinn á gjörgæsludeild Landspítalans eftir árásina. Málsatvik eru enn óljós, að sögn lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

Fram kom í frétt Ríkisútvarpsins að maðurinn, sem er litáískur, hafi slasast í átökum á heimili sínu í Bökkunum í Breiðholti í nótt og höfuðkúpubrotnað eftir að hann var sleginn með barefli. Sex litháískir karlmenn eru í haldi lögreglu vegna slagsmálanna. Að sögn lögreglu voru barefli notuð í átökunum. Annar maður slasaðist einnig, fékk minniháttar áverka eftir óþekkt áhald. Lögreglan tekur nú skýrslur af mönnunum með aðstoð túlks. Þeir munu allir vera búsettir hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert