Saksóknari efnahagsbrota, Helgi Magnús Gunnarsson, hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að nauðsynlegt sé að efla rannsóknir í umfangsmiklum efnahagsbrotum. Ein leið til að bæta úr þessu væri að sameina embætti hans og skattrannsóknarstjóra. Skattrannsóknarstjóri vill hins vegar fá ákæruvald og telur að með því sé hægt að kom í veg fyrir að skattsvikamál dagi uppi hjá lögreglunni. Það sé betri lausn en að sameina embætti. Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins.
Bryndís er ósammála saksóknara efnahagsbrota, sem hefur sagt að hjá skattrannsóknarstjóra sé ekki sérþekking á því hvað þurfi til að sakfella skattsvikara fyrir dómstólum.
Í grein í Morgunblaðinu í dag segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri „mál sem sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra verða sífellt flóknari og vandasamari í rannsókn. Skattrannsóknarstjóri hefur í yfir fjörutíu ár haft með höndum rannsóknir á brotum á skattalögum. Innan embættisins hefur byggst upp þekking og reynsla og eru færustu sérfræðingar starfandi hjá embættinu í dag.“ Og hún segir því rannsóknargögn frá skattrannsóknarstjóra standast allar kröfur um skírleika.
Bryndís telur réttara að embætti hennar fái ákæruvald og geti ákært skattsvikara beint til dómstóla í stað þess að vísa málum til lögreglunnar. Með þessu þyrfti ekki að rannsaka hvert mál tvisvar og sérþekking skattrannsóknarmanna myndi nýtast.