Alvarlegum umferðarslysum fjölgaði um 60% á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2007 miðað við sama tímabil á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu. Þá slösuðust 57,5% fleiri alvarlega heldur en á sama tímabili í fyrra. Á þessu ári urðu 48 alvarleg slys og 52 slösuðust alvarlega. Á sama tímabili á síðasta ári urðu þau 30 og 33 slösuðust alvarlega.
Umferðarstofa segir, að það eina sem teljist jákvætt í slysaþróun ársins sé, að banaslys séu færri í ár en á árinu 2006, eða 2 en höfðu orðið 5 á sama tímabili í fyrra.
Slysum þar sem fólk verður fyrir minniháttar meiðslum hefur líka fjölgað eða um tæplega 40% og slösuðum um 35%.