Brenndist þegar Strokkur gaus

Strokkur að gjósa.
Strokkur að gjósa. mbl.is/RAX
Eftir Gunnar Pál Baldvinsson gunnarpall@mbl.is
Rúmlega tvítugur Pólverji slasaðist nokkuð í gær þegar sjóðandi vatn úr goshvernum Strokk skvettist yfir fætur hans. Vegfarandi kom manninum til kælingar og segir eftirlit á hverasvæðinu vera allt of lítið.

Maðurinn var ásamt fjórum félögum sínum að skoða hverasvæðið snemma í gærmorgun þegar Strokkur gaus. Misreiknuðu mennirnir hæð vatnsstróksins með þeim afleiðingum að manninum tókst ekki að víkja sér undan. Sjóðandi vatn skvettist því yfir fætur mannsins. Mennirnir ætluðu að koma félaga sínum í kælingu en vissu ekki hvert þeir ættu að snúa sér enda engin þjónustustarfsemi opin.

Ástdís Kristjánsdóttir var á leið til vinnu á Gullfossi þegar hún hlýddi merkjum Pólverjanna þar sem þeir höfðu stöðvað bíl sinn 15 kílómetra frá Geysi. Voru þeir þá á leið til Selfoss með félaga sinn sem var þá sárkvalinn. Ástdís kom manninum í kælingu á nærliggjandi bæ þar sem hún þekkti til og beindi Neyðarlínu á staðinn.

Maðurinn var síðan fluttur í sjúkrabíl á slysadeild í Reykjavík og reyndist hann vera með 2. stigs bruna. Fór hann heim að lokinni meðferð en líklega mun taka um tvær vikur fyrir hann að ná sér.

Ástdís segir ljóst að mennirnir hafi verið komnir of nærri hvernum og e.t.v. þurfi að gera fólki hættuna ljósari. "Mér finnst þetta sýna að eftirlitið á hverasvæðinu er allt of lítið. Þarna þarf einhver vörður að vera og t.d. neyðarhnappur ef eitthvað kemur upp á," segir Ástdís. Landvörður á að vera við Geysi en hann þarf einnig að sjá um svæðið við Gullfoss.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert