Breskir fiskkaupendur fagna ákvörðun um afnám útflutningsálags á fiski

Fréttavefurinn fishupdate.com sagði frá því í gær að fiskkaupendur í Hull og Grimby fagni nú mjög. Ástæða gleðinnar er sögð vera sú að Bretar hafi nú loks sannfært sjávarútvegsráðherra Íslands um að afnema 10% álag sem greitt hefur verið hér á landi vegna útflutnings á gámafiski. Verkalýðsfélag Akraness lýsir hinsvegar yfir miklum áhyggjum yfir ákvörðun sjávarútvegsráðherra og segir hana ekki bæta stöðu fiskvinnslufólks og sjómanna vegna niðurskurðar í aflaheimildum á þorski.

Sjávarútvegsráðherra fundar nú með forystumönnum verkalýðsfélaga víðsvegar um land og er ástæða fundahaldanna fyrirséður niðurskurður á aflaheimildum á þorski og áhrif þess á kaup og kjör launafólks. Forsvarsmenn Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Húsavíkur hitta Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, í dag. Lýsa verkalýðsforystumenn yfir áhyggjum sínum yfir áhrifum niðurskurðar aflaheimilda á kaup og kjör fiskvinnslufólks og sjómanna. Forkólfar Starfsgreinasambandsins funda líka með ráðherra í dag.

Afnám 10% álags vegna útflutnings á gámafiski frá Íslandi til að bæta gráu ofan á svart

Verkalýðsfélag Akraness lýsir líka yfir áhyggjum sínum vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um að fella úr gildi 10% álag sem greitt hefur verið vegna útflutnings á gámafiski frá Íslandsmiðum. Segir í fréttatilkynningu frá verkalýðsfélaginu að svo mikið sé víst að þessi ákvörðun mun ekki bæta stöðu fiskvinnslufólks, því allt útlit er á því að við afnám á umræddu 10% álagi á gámafiski muni útflutningur á fiski aukast og mun það bætast ofaná þann niðurskurð sem fyrirhugaður er 1. september.

Fréttavefurinn Fishupdate.com greindi frá því í gær að fiskkaupendur í Hull og Grimsby fagna þessari ákvörðun íslenska sjávarútvegsráðherrans mjög,því nú verði auðveldara að kaupa íslenskan fisk. Á fréttavefnum kemur líka fram að hagsmunaaðilar í Bretlandi hafi þrýst á um þessa breytingu ásamt íslenskum fiskútflytjendum og eigendum íslenskra togara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert