Eldur kom upp í vélarrúmi í hvalaskoðunarbátnum Hafsúlunni skammt frá Reykjavíkurhöfn nú síðdegis, um sjötíu manns eru um borð í bátnum, en samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðins hefur tekist að ráða niðurlögum eldsins.
Báturinn lagði af stað frá Reykjavíkurhöfn klukkan 17 og varð eldsins vart skömmu síðar. Báturinn er nú á leið til hafnar. Ekki er vitað að svo stöddu hvernig eldurinn kom upp eða hvort mikil hætta var á ferðum, engan mun þó hafa sakað.
Skip Slysavarnafélagsins Landsbjargar var kallað út vegna eldsins en það útkall hefur nú verið afturkallað samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.