Bor 2 í Kárahnjúkavirkjun setti að öllum líkindum heimsmet í borun jarðganga á laugardaginn. Hann boraði þá 106,12 metra á einum sólarhring og samkvæmt fréttavef Kárahnjúkavirkjunar munu engin önnur dæmi vera um slíkan árangur í heiminum. Fyrra bormetið átti þessi sami bor en í júní 2006 boraði hann 92 metra á einum sólarhring.
Að sögn Ómars R. Valdimarssonar, talsmanns Impregilo, er ekki hægt að staðfesta strax að um heimsmet sé að ræða en málið er í rannsókn. Bera þurfi göngin saman við önnur göng af svipuðu ummáli en Ómar segir þetta þó ansi gott afrek, lengdin ein og sér sé vafalítið heimsmet. Jafnframt segist hann ánægður með að fá loks vind í seglin en berglögin og jarðfræðin á svæðinu hafi ekki alltaf verið þeim hliðholl.
„Það ríkir mikil ánægja upp frá. Ætli það verði ekki tekinn tappi úr einni eða tveimur kampavínsflöskum þegar þetta fæst staðfest," segir Ómar og segir menn fara varlega í fagnaðarlæti meðan staðfesting liggur ekki fyrir. Hún ætti hins vegar að fást í dag.