Pókermót haldið hjá félagi ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði

Félag ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði hélt pókermót um helgina þar …
Félag ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði hélt pókermót um helgina þar sem spilaði var upp á peninga.

Stefnir, félag ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, hélt á laugardagskvöld pókermót í húsnæði félagsins. Í kringum 20 manns spiluðu upp á spilapeninga og voru peningaverðlaun í boði í lokin. Mótið var ekkert auglýst en þetta er í annað sinn sem ungir sjálfstæðismenn halda pókermót í húsnæði sínu, síðast var haldið mót í mars síðastliðnum.

Samkvæmt heimildum Fréttavefjar Morgunblaðsins kostaði 1500 krónur inn á pókermótið og fyrir þá upphæð fengu þátttakendur spilapeninga. Ef menn duttu út fyrsta klukkutímann var hægt að kaupa sig aftur inn og fá þá fleiri spilapeninga.

Að sögn Kristjáns Valgeirs Þórarinssonar, formanns Stefnis, rann ekkert af aðgangseyrinum til félagsins heldur beint í verðlaunapottinn. Aðild að félaginu eiga ungir sjálfstæðismenn á aldrinum 15-35 ára en Kristján segir að þátttakendur hafi allir verið yfir 18 ára aldri og fylgst hafi verið með því að aldurstakmarkið hafi verið virt. Ennfremur þurftu þátttakendur að vera skráðir í Sjálfstæðisflokkinn til að geta spilað með.

Tvö ákvæði hegningarlaga banna fjárhættuspil en Kristjáni þykir ekkert athugavert við að halda pókermót þar sem spilað er upp á peninga. „Póker er gríðarlega vinsæll leikur og þetta pókermót var ekkert ólíkt golfmótum eða bridgemótum eða jafnvel bingói í Vinabæ," sagði Kristján en segir ekkert ákveðið hvort haldin verði fleiri mót af þessu tagi.

Rannsókn á samskonar pókermóti stendur yfir hjá lögreglu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði 150 manna pókermót sem haldið var þann 16. júní síðastliðinn og er það mál enn til meðferðar hjá embættinu. Þar, líkt og í Hafnarfirði nú um helgina, greiddu þátttakendur þátttökugjald og fengu spilapeninga fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka