Rækjuvinnslu hætt hjá Miðfelli á Ísafirði

Miðfell.
Miðfell. mynd/bb.is

Rækjuvinnslu Miðfells hf. á Ísafirði hefur verið hætt ótímabundið frá og með deginum í dag. Í tilkynningu frá Elíasi Oddssyni framkvæmdastjóra kemur fram að ekki hafi neinar ákvarðanir verið teknar um uppsagnir starfsfólks að svo stöddu, en um 40 manns vinna hjá fyrirtækinu.

Í tilkynningu frá Miðfelli segir, að vegna erfiðrar stöðu í rækjuiðnaði að undanförnu hafi verið ákveðið að stöðva vinnslu hjá Miðfelli ótímabundið frá og með deginum í dag. Staða á mörkuðum bæði hráefnis- og afurðamörkuðum og ekki síst staða krónunnar og styrking hennar að undanförnu, hafi neytt stjórnendur félagsins til að taka þessa ákvörðun. Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um uppsagnir starfsfólks að svo stöddu.

Elías sagðist í samtali við bb.is ekki geta sagt fyrir um það hvort og þá hvenær vinnsla hefjist aftur hjá félaginu. „Það hafa verið erfiðleikar í rækjuvinnslu í langan tíma og nú er ekki hægt að halda áfram að óbreyttu miðað við þá stöðu sem fyrirtækið er komið í“, segir Elías. „Það sem af er þessu ári hefur verið mjög erfitt. Gengi krónunnar hefur styrkst verulega, sem er öllum útflutningi óhagstætt, en þar að auki hefur verið lítið framboð af hráefni, verð þess hátt og afurðaverð ekki hækkað í takt við væntingar.“

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir tíðindin alvarleg en komi þó ekki mjög á óvart. „Maður er búinn að eiga von á þessu í nokkurn tíma, en rækjuvinnslan hefur verið mjög á niðurleið að undanförnu og verksmiðjum hefur verið lokað um allt land. Við höfum fylgst með rekstri þessa fyrirtækis í langan tíma og höfum þurft að grípa nokkrum sinnum inn í“, segir Halldór.

Miðfell var stofnað árið 1999 og hefur rekið rækjuverksmiðju að Sindragötu 1 á Ísafirði. Stærstu hluthafar félagsins eru Byggðastofnun, Hömlur, Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. í Hnífsdal og Ísafjarðarbær sem gerðist hluthafi í félaginu árið 2004 þegar skuldum félagsins við bæinn var breytt í hlutafé.

Bæjarins besta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert