Landflutningar-Samskip hafa sent frá sér athugasemd vegna frétt í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi en þar kom m.a. fram að heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar hefði fengið kvartanir yfir því að lík væru geymd í matarkælum flutningafyrirtækisins á meðan beðið sé flutninga.
Athugasemd Landflutninga-Samskipa er eftirrfarandi:
Í fréttum Stöðvar 2 að kvöldi 24. júní var fjallað um flutninga á líkum hér innanlands. Framsetning málsins var með þeim hætti að skapað gæti tortryggni og jafnvel sársauka hjá þeim sem málið varðar. Af því tilefni skal eftirfarandi tekið fram:- Landflutningar-Samskip hafa um árabil veitt aðstandendum og útfararstofum þá þjónustu að flytja lík milli landshluta. Það mun fyrirtækið gera áfram og fylgja nákvæmlega öllum reglum þar að lútandi, hér eftir sem hingað til.
- Engar athugasemdir hafa verið gerðar að hálfu opinberra aðila um framkvæmd líkflutninga á vegum fyrirtækisins. Starfsemi Landflutninga er gæðavottuð og tekin út reglulega í samræmi við það.
- Landflutningar kosta kapps um að standa þannig að líkflutningi að sýnd sé tilheyrandi nærgætni og virðing gagnvart minningu hinna látnu og aðstandendum þeirra.