Stjórnkerfisbreytingar hjá Reykjavíkurborg

Embætti borgarritara og borgarlögmanns verða endurvakin samkvæmt nýsamþykktum breytingum á stjórnkerfi og skipuriti Reykjavíkurborgar. Embættin voru lögð niður við stjórnkerfisbreytingar innan Reykjavíkurborgar á árunum 2004-2005.

Borgarstjórn samþykkti tillögu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra, að breytingum á stjórnkerfi og skipuriti Reykjavíkurborgar á fundi sínum sl. fimmtudag. Stjórnkerfisbreytingarnar fela m.a. í sér að lögð verða niður þrjú miðlæg svið í Ráðhúsi Reykjavíkur, þ.e. Fjármálasvið, Stjórnsýslu- og starfsmannasvið og Þjónustu- og rekstrarsvið.

Nýtt embætti borgarritara mun taka við verkefnum sviðanna og hafa yfirumsjón með greiningu, hagskýrslugerð, fjármálastjórn, innkaupamálum, mannauðsstjórn og þjónustu- og upplýsingatæknimálum Reykjavíkurborgar. Borgarritari verður staðgengill borgarstjóra. Embætti borgarritara hefur þegar verið auglýst laust til umsóknar.

Með breytingum þeim sem nú eru gerðar á stjórnkerfi Reykajvíkurborgar heyrir öll starfsemi Ráðhússins undir borgarritara að undanskildum skrifstofu borgarstjóra, skrifstofu borgarstjórnar og embætti borgarlögmanns.

Með stjórnkerfisbreytingunum hefur verið stofnað embætti borgarlögmanns í Ráðhúsi Reykjavíkur. Borgarráð samþykkti einróma tillögu borgarstjóra um ráðningu Kristbjargar Stephensen í stöðuna. Kristbjörg hefur gegnt stöðu skrifstofustjóra lögfræðiskrifstofu og verið starfandi borgarritari um nokkurt skeið. Borgarlögmaður mun bera ábyrgð á lögfræðilegri ráðgjöf, álitsgerðum og umsögnum. Þá mun hann bera ábyrgð á málflutningi og annarri réttargæslu fyrir Reykjavíkurborg og annast samningsgerð fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka