Þorskur á Hampiðjutorgi breytir ekki heildarmyndinni

„Ef þetta er íslenskur fiskur, sem mér finnst hvað líklegast, er þetta fiskur sem er í bókhaldinu okkar sem ungviði, þannig að ég held að þetta breyti ekki miklu. Þó svo að það væru þarna einhver þúsund tonn, breytir það ekki heildarmyndinni í okkar ráðgjöf, segir Björn Ævarr Steinarsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Að undanförnu hafa íslenskir togarar á grálúðuveiðum við Hampiðjutorgið þurft að flýja þaðan vegna mikillar þorskgengdar. Hilmar Helgason skipstjóri segir í samtali við Morgunblaðið á laugardaginn að hann hafi stundað veiðar á svæðinu frá árinu 1990 og aldrei séð annað eins.

Björn segir að sýni frá svæðinu verði tekin til rannsóknar. Þegar þau hafa borist stofnuninni verði farið mjög ítarlega yfir það hvaðan fiskurinn er upprunninn, með tilliti til fæðuvals, kvarnastrúktúrs, aldurs og fleiri atriða. Þá muni afladagbækur frá togurum á Hampiðjutorgingu verða hafðar til hliðsjónar.

„Það sem er merkilegt við þetta er það að þeir eru að fá fisk þarna á mun meira dýpi en áður hefur þekkst," segir Björn, en þorskur hefur verið að veiðast í allt niður á 500 faðma dýpi á svæðinu. Hann segir blikur á lofti um að ástandið í Grænlandshafi sé að breytast. „Í raun má segja að þeir [skipstjórarnir við Hampiðjutorg] séu að sjá fiskinn breyta hegðun sinni. Umhverfisaðstæður eru mjög breyttar og það er allt önnur mynd sem blasir við í dag," segir Björn og bætir við að Hafrannsóknastofnun rannsaki nú þennan samgang þorsksins milli Austur-Grænlands og Íslands.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert