Viðræður við ríkið um almenningssamgöngur

mbl.is/ÞÖK

Samþykkt var á stjórnarfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í dag, að skipa viðræðunefnd við ríkið um þátttöku þess í kostnaði vegna almenningssamgangna. Vilja samtökin m.a. að skoðað verði að fella niður virðisaukaskatt af aðföngum og nýjum strætisvögnum og ýmis önnur gjöld af almenningssamgöngum verði felld niður.

Í greinargerð með tillögu um viðræðunefndina segir, að ríkið komi ekkert að almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu en rútur og annar ferðamáti á landsbyggðinni hafi hins vegar notið styrkja beint eða ívilnana í formi skattaafslátta.

Í greinargerðinni er einnig lagt til að ríkið komi að rekstri tengileiða á höfuðborgarsvæðinu líkt og þeirra leiða, sem farnar eru milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Um sé að ræða að minnsta kosti 6 leiðir, sem gegni veigamiklu hlutverki í samtengingu sveitarfélaganna. Alls sé akstur þessara leiða um þriðjungur alls aksturs í núverandi leiðakerfi Strætó bs. og kostnaður sé 8-900 milljónir króna.

Í viðræðuhópnum eru Gunnar Einarsson, Gunnar I. Birgisson, Lúðvík Geirsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorbjörg H. Vigfúsdóttir, varaformaður stjórnar Strætó bs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert