Ekkert bólar á aukaferðum Herjólfs

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur.
Vestmannaeyjaferjan Herjólfur.
Eftir Evu Bjarnadóttur eva@mbl.is
Erfiðlega gengur að koma á næturferðum með Herjólfi á þrátt fyrir ákvörðun ríkisstjórnar þar að lútandi. Þrátt fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fjölga ferðum með Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi um 20 í sumar bólar ekkert á slíkri viðbót, segir bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum. Vegamálastjóri segir skýringu á töfum vera að ekki náist samningar milli Vegagerðarinnar og Eimskipa, sem reka Herjólf.

Mikilvægt að verða strax við ósk Vestmannaeyinga

Áætlað var að bæta við rúmlega 20 ferðum á mikilvægum ferðadögum og þá daga verða því þrjár ferðir á dag. Í ríkisstjórnarsamþykkt segir að Kristjáni L. Möller, samgönguráðherra, hafi borist beiðni frá bæjarstjórn Vestmannaeyja um að bæta við þriðju ferð Herjólfs á mikilvægum ferðadögum í sumar. Einkum sé horft til næturferða á föstudögum en aðrir dagar, þegar vænta má mikils straums ferðamanna og eftirspurn er mikil vegna flutnings á bílum með fylgivagna, komi einnig til greina.

Í samþykktinni er gert ráð fyrir að kostnaður vegna rúmlega 20 ferða sé kringum 30 milljónir króna og tekið er fram að mikilvægt sé að verða strax við þessari ósk Vestmannaeyinga og að Eimskip, sem rekur Herjólf, muni tilgreina nánari tilhögun aukaferðanna.

20 ferðir nauðsynlegur plástur á samgöngusárið

Það sem af er sumars hefur ekkert bólað á reglulegum aukaferðum og segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, ástandið óásættanlegt. „Staðan nú er einfaldlega sú að flestar helgar í sumar er erfitt og stundum ómögulegt fyrir okkur Eyjamenn og gesti okkar að ferðast til og frá Eyjum. Þessar 20 ferðir sem búið var að lofa eru náttúrulega nauðsynlegur plástur á samgöngusárið sem hér blæðir úr.“ Hann segir það sem til þurfi sé að tafarlaust verði fengin nýrri og öflugri ferja sem leyst geti þessa af þar framtíðarsamgöngur komist á.

„Nú þegar hefur einhverjum viðbótarferðum verið bætt við. Um fimm ferðum í sumar, en ekkert komið á hreint með restina,“ segir Auður Eyvindsdóttir, forstöðumaður hjá Vegagerðinni. „Málið stoppar helst á peningahliðinni og fjölgun á ferðum krefst mun hærri greiðslna heldur lofað var í ríkisstjórnarsamþykktinni,“ bætir hún við.

Jón Rögnvaldsson, vegamálastjóri, segir samninga ekki hafa náðst við rekstraraðila, en Vegagerðin reyni að ná samkomulagi. Ekki er vitað hvenær það tekst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert