Fagna samþykkt um Urriðafossvirkjun

Samtökin Sól á Suðurlandi, Sól í Straumi og Sól á Suðurnesjum lögðu frá ályktun á fundi íbúa Flóahrepps í gærkvöldi, þar sem fagnað er samþykkt hreppsnefndar Flóahrepps frá þrettánda júní um að hafa Urriðafossvirkjun ekki inni á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Segja samtökin að samþykktin sé mikil hvatning til þeirra, sem vilja verja náttúruna við Þjórsá og hindra að orka þaðan verði seld til stóriðju.

Segja samtökin að viðbrögð Landsvirkjunar við ákvörðun hreppsnefndar um drög að skipulagstillögu án virkjunar séu ámælisverð. Óeðlilegt sé að skipulagstillögurnar séu nú orðnar tvær eftir heimsókn Landsvirkjunar í Flóann.

„Sól á Suðurlandi, Sól í Straumi og Sól á Suðurnesjum vilja ekki trúa því að hreppsnefnd Flóahrepps sé boðið að selja náttúruperlur á svæðinu fyrir opinberar framkvæmdir eða þjónustu, hvað þá að hreppsnefndin gangi að slíkum afarkostum. Flóamenn eiga rétt á almannaþjónustu án þess að þurfa að greiða hana slíku verði. Landsvirkjun getur varla haft umboð ríkisins til þess að gera Flóamönnum gylliboð um fjármuni almennings," segir síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert