Nico Rosberg, ökumaður Williamsliðsins í Formúlu 1-kappakstrinum, sýndi listir sínar á bílaplaninu við Smáralind í dag. Bíllinn sem hann ók er notaður í tilraunaakstri, og er ennfremur varabíll í keppnum.
Áður en Rosberg settist undir stýri veitti hann aðdáendum sínum á Íslandi eiginhandaráritanir og fjölmiðlum viðtöl.
Næsta keppni sem hann tekur þátt í er í Frakklandi á sunnudaginn, og hann kvaðst bjartsýnn á gengi sitt þar. Liðinu hafi gengið vel upp á síðkastið, og ef hann næði sjötta til sjöunda sæti yrðu það góð úrslit.
Þetta mun vera í fyrsta sinn sem Formúlubíl er ekið hérlendis. Bílnum, sem vegur um 600 kg, fylgir 20 manna starfslið ásamt tæplega 8 tonnum af búnaði.
Baugur Group og Hagkaup standa fyrir komu Rosbergs og bílsins til landsins.