Hjörtur Magni telst ekki hafa brotið siðareglur

Siðanefnd Prestafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu, að sr. Hjörtur Magni Jóhannesson, prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík, hafi ekki brotið siðareglur presta með ummælum í sjónvarpsþættinum Kompási og víðar. Átta prestar kærðu ummæli Hjartar Magna til siðanefndar fyrir ýmis ummæli um Þjóðkirkjuna á opinberum vettvangi.

Prestarnir sem kærðu töldu m.a. að Hjörtur Magni hefði brotið siðareglur, sem varða skyldur við starfssystkin og vandvirkni í störfum. Meðal þess, sem prestarnir vísuðu til í kæru sinni, voru ummæli Hjartar Magna í Kompási, en þar sagði hann, að hver sú trúarstofnun, sem teldi sig hafa höndlað sannleikann yrði um leið stórhættuleg ef ekki bara djöfulleg. Ennfremur sagði hann að ef trúarstofnunin breyttist ekki, heldur færi að láta fólk dýrka sig í stað Guðs, þá væri hún jafnframt að brjóta fyrsta boðorðið sem segir: þú skalt ekki aðra Guði hafa.

Þá töldu prestarnir að Hjörtur hafi gerst brotlegur við þá frumskyldu prestsþjónustunnar, sem lúti að boðun Guðs orðs opinberlega, þar sem hann hafi notað prédikunarstólinn til að koma sínum persónulega málflutningi áleiðis.

Hjörtur Magni sagði í andmælum sínum m.a., að þótt stofnun og ytri umgjörð hennar sé gagnrýnd og trúverðugleiki hennar dreginn í efa þurfi það alls ekki að fela í sér að starfsmenn hennar liggi allir persónulega undir ámælum. Þá mótmælti Hjörtur Magni því að persónulegur málflutningur hans sé á kostnað fagnaðarerindisins heldur leitist hann við að boða fagnaðarerindi Jesú Krists eins og það sé að finna í Guðs orði.

Í umfjöllun sinni segir siðanefndin, að ummælin sem tiltekin séu í kærunni snúi fyrst og fremst að skoðunum Hjartar Magna á þjóðkirkjunni og hvernig hún hafi brugðist við einstökum deiluatriðum. Hvergi sé spjótunum beint að tilgreindum einstaklingum og teljist því vart meiðandi hvað þá varði. Það sé álit siðanefndar, að æskilegt hefði verið að kærendur svöruðu harðri gagnrýni prestsins á opinberum vettvangi.

Siðanefndin segist geta tekið undir það sjónarmið kærenda, að Hjörtur Magni kunni í einstökum orðum sínum að hafa gengið heldur hart fram og í gagnrýni hans á þjóðkirkjuna séu ýmsar rangfærslur. Eru þær tilgreindar í úrskurðinum. En þar sem brotalöm í málflutningi Hjartar Magna beinist ekki að neinni persónu sérstaklega sé það túlkun siðanefndar að ekki sé um að ræða brot við siðareglur Prestafélags Íslands þótt rangfærslan sem slík standi eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert