Dæmdur til að borga fyrir veiðiheimildir sem fylgdu báti

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt karlmann til að borga öðrum manni 6,6 milljónir króna fyrir veiðiheimildir sem fylgdu báti. Eigendaskipti urðu að bátnum árið 2003 og greiddi kaupandinn 900.000 krónur fyrir hann en dómkvaddur matsmaður hefur síðan komist að þeirri niðurstöðu, að verðmæti 19 sóknardaga, sem fylgdu bátnum, hafi verið 6,6 milljónir.

Sá sem seldi bátinn var 87 ára gamall þegar viðskiptin fóru fram og sagði hann fyrir dómi, að sér hafi ekki gefist ráðrúm til að leita álits annarra á kauptilboðinu, en kaupin gengu hratt fyrir sig. Þá hafi hann hvorki notið leiðsagnar né sérfræðiaðstoðar í viðskiptunum og kaupandinn hafi sjálfur séð um alla skjalagerð í tengslum við söluna, þar á meðal gerð kaupsamnings og afsals.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu, að kaupandinn yrði að þola breytingu á kaupverði bátsins til hækkunar. Dómurinn taldi ekki efni til að leggja mat á það sérstaklega hvort kaupandinn hafi beitt svikum við samningsgerðina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert