Sendinefnd frá Norsk Hydro er væntanleg til Þorlákshafnar í vikunni til að kanna staðhætti vegna hugsanlegra stóriðjuframkvæmda. Norsk Hydro var síðast í alvarlegum viðræðum um stóriðju hér á landi árið 2002. Þá stóð til að semja um álver í Reyðarfirði, en Norðmennirnir viku nokkuð skyndilega frá borðinu.
Blaðafulltrúi Hydro, Thomas Knutzen, segir það ekki óeðlilegt að fyrirtækið horfi enn til Íslands. Það hafi um árabil fylgst náið með þróun mála á Íslandi og að ástæður þess að slitnað hafi upp úr samningaviðræðum á sínum tíma hafi ekki snert Ísland sem starfsvettvang, heldur hafi komið upp annað tækifæri í öðrum heimshluta sem fyrirtækinu fannst eðlilegra að beina athyli sinni að. Hydro hafi alltaf verið, og sé enn, áhugasamt um starfsemi á Íslandi.