Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir að ríkisvaldið verði að bregðast við samdrætti í veiðum á þorski með því að aðstoða þær sjávarbyggðir sem háðastar eru þorskveiðum. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands telur áhrif niðurskurðar á aflaheimildum verða mest á Vestfjörðum en jafnframt séu möguleikar til að bregðast við þar hvað minnstir. Það megi t.d. gera með aðstoð við fyrirtæki og byggðir, tímabundinni lækkun veiðigjalds og opinberum framkvæmdum.
Rannsókn Hagfræðistofnunar miðaði að því að skoða þjóðhagsleg áhrif aflareglu en stofnunin setti ekki fram beinar tillögur um hámarksafla þorsks. Bendir hún engu að síður á afleiðingar ýmissa leiða. Stofnunin telur þó að byggja þurfi upp viðmiðunarstofn þorsks í 900 þúsund tonn til að hann skili afla yfir 300 þúsund tonnum á ári. Því markmiði sé hægt að ná með því að minnka aflann verulega tímabundið, líkt og Hafrannsóknastofnun leggur til, eða jafnvel enn meira.
Ragnar Árnason, stjórnarformaður Hagfræðistofnunar, segir að væri markmið veiðanna eitt að hámarka hagnað og arð af fiskveiðum ætti að leggja veiðar af þar til viðmiðunarstofninn hefði náð ákveðinni stærð. Það sé þó ekki raunhæft.
„Ef við fylgjum tillögu Hafrannsóknastofnunar og veiðum 130 þúsund tonn á næsta ári, þá er það nokkuð örugg leið. Líkurnar á hruni stofnsins eru mjög litlar. Það þýðir samdrátt í landsframleiðslu upp á 0,5-1% á því ári. Það þýðir hins vegar það að við þurfum að bíða nokkuð lengur eftir góðum þorskafla en ef við gengjum lengra," segir Ragnar.
Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.