Lendingar ákveðinna flugvéla hér á landi teknar til nánari skoðunar

Þessi flugvél er ein þeirra, sem nefndar voru í tengslum …
Þessi flugvél er ein þeirra, sem nefndar voru í tengslum við fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar. Vélin lenti þrisvar á Reykjavíkurflugvelli árið 2004. mbl.is/Sverrir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hefur ákveðið að lendingar ákveðinna flugvéla á Keflavíkurflugvelli og/eða Reykjavíkurflugvelli verði teknar til nánari skoðunar. Er þessi ákvörðun tekin í kjölfar umfjöllunar þings Evrópuráðsins í dag um skýrslu um leynifangelsi og ólöglegt fangaflug CIA í gegnum lofthelgi Evrópuráðsríkja.

Þing Evrópuráðsins samþykkti í dag skýrslu svissneska þingmannsins Dicks Marty en í skýrslunni er fullyrt, að CIA hafi rekið leynileg fangelsi í Póllandi og Rúmeníu á árunum 2003 til 2005 og yfirheyrt þar meinta hryðjuverkamenn.

Þá eru Þjóðverjar og Ítalar gagnrýndir fyrir að beita lagaákvæðum um ríkisleyndarmál til að reyna að hindra rannsóknina.

Ályktun þar sem tekið er undir þessar niðurstöður, var samþykkt með 124 atkvæðum gegn 37 en átta sátu hjá. Breytingartillögur frá Pólverjum og Rúmenum, sem neita ásökununum í skýrslunni, voru felldar.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu er ítrekað, að íslensk stjórnvöld hafi svarað með fullnægjandi hætti beiðnum Evrópuráðsins um upplýsingar varðandi framangreint. Ennfremur vilji utanríkisráðuneytið ítreka að því sé ekki kunnugt um flug á vegum bandarísku leyniþjónustunnar með fanga eða meinta hryðjuverkamenn um íslenska lofthelgi eða Keflavíkurflugvöll. Hafi bandarísk stjórnvöld aldrei sótt um yfirflugs- eða lendingarleyfi fyrir slíkar flugvélar.

Marty fullyrðir í skýrslunni, að NATO og Bandaríkin hafi gert með sér leynilegt samkomulag eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 sem hafi gert CIA kleift að reka fangelsin leynilegu.

Í skýrslunni segir að Aleksander Kwasniewski, fyrrum forseti Póllands, og Ion Iliescu, fyrrum forsætisráðherra Rúmeníu og Traian Basescu, forseti landsins, hafi heimilað umrædda áætlun. Í skýrslunni er þess krafist þeir þeir verði gerðir ábyrgir.

Um er að ræða aðra skýrsla Marty um málið. Hann sagðist ekki hafa umboð til að gera þriðju skýrsluna og hvatti þingmenn Evrópuráðsins að krefjast upplýsinga frá eigin ríkisstjórnum.

George W. Bush, Bandaríkjaforseta, viðurkenndi á síðasta ári að leynifangelsi hefðu verið til en allir fangar hefðu verið fluttir þaðan í herfangelsið við Guantánamoflóa á Kúbu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert