Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt bónda á Suðurlandi til að greiða ungri konu tæpar 2 milljónir króna í bætur fyrir áverka sem hún fékk þegar kýr réðist á hana. Það gerðist árið 2002 þegar konan var 14 ára og hún hlaut m.a. áverka á baki og telst hafa hlotið 5% varanlega örorku.
Faðir bóndans á bænum fékk stúlkuna með sér til að reka með sér nýborna kú úr haga heim í fjós. Sagði maðurinn fyrir dómi, að kýrin hefði ráðist umsvifalaust á stúlkuna og fellt hana og þjarmað að henni. Sagðist maðurinn hafa lamið kúna eins og hann gat með plastslöngu sem hann var með, en þá hafi hún allt í einu sleppt stúlkunni og rokið á hann og fellt hann.
Dómarinn segir, að engar vísbendingar séu um að stúlkan hafi sýnt af sér aðgæsluleysi og ekki sé réttlátt að stúlkan beri óbætt líkamstjón sitt, sem hún fékk við vinnu sína í þágu bóndans og eigi jafnframt enga sök á sjálf. Telja verði, að saknæmt gáleysi stjórnanda stúlkunnar umrætt sinn, sem starfaði í umboði bóndans við rekstur kýrinnar, hafi verið sá mannlegi þáttur er olli slysinu. Verði bóndinn því að bera ábyrgð á því að svo fór sem fór.