Umdeildur dugnaðarforkur breiðir úr sér í borginni

00:00
00:00

Lúpína hef­ur á und­an­förn­um árum breiðst hratt út í landi höfuðborg­ar­inn­ar, og seg­ir Borgþór Magnús­son, vist­fræðing­ur hjá Nátt­úru­fræðistofn­un Íslands, að segja megi að út­breiðslan sé stjórn­laus. Í kjöl­far lúpín­unn­ar muni koma skóg­ar­kerf­ill, og breiðurn­ar sem nú eru blá­ar verði því hvít­ar.

Lúpín­an hef­ur verið í ná­grenni við Rauðavatn frá því um 1970, en henni var sáð í Hólms­heiði þegar þar var verið að planta skógi. Borgþór seg­ir að svo lengi sem lúpín­an hafi land að nema haldi hún áfram að breiða úr sér.

Hún taki að hörfa á höfuðborg­ar­svæðinu eft­ir 20-30 ár og skilji eft­ir graslendi með blóm­jurt­um á borð við sól­ey og fíf­il. En á síðustu árum hafi birst nýr gest­ur sem komi í kjöl­far lúpín­unn­ar, en það er skóg­ar­kerf­ill, sem einnig breiðist hratt út í landi þar sem eng­in beit er.

Borgþór tel­ur þess vegna að þegar lúpín­an tek­ur að láta und­an taki skóg­ar­kerf­ill­inn við, og í stað bláu lúpínu­breiðanna komi hvít­ar kerf­ils­breiður. Sauðfé sé horfið af stór­um svæðum á land­inu, og þá standi ekk­ert í vegi fyr­ir lúpín­unni og skóg­ar­kerfl­in­um.

Lyk­ill­inn að þess­um um­deilda dugnaði lúpín­unn­ar eru gerl­ar sem hún hef­ur í rót­un­um, en þess­ir gerl­ar binda köfn­un­ar­efnið sem lúpín­an vinn­ur úr loft­inu. Einnig á hún auðvelt með að afla fos­fórs úr jarðveg­in­um, sem er nauðsyn­leg­ur plönt­um til vaxt­ar. Lúpín­an get­ur því vaxið nán­ast á ber­um grjóti og sandi án þess að fá þaðan annað en raka.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert