Umdeildur dugnaðarforkur breiðir úr sér í borginni

Lúpína hefur á undanförnum árum breiðst hratt út í landi höfuðborgarinnar, og segir Borgþór Magnússon, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, að segja megi að útbreiðslan sé stjórnlaus. Í kjölfar lúpínunnar muni koma skógarkerfill, og breiðurnar sem nú eru bláar verði því hvítar.

Lúpínan hefur verið í nágrenni við Rauðavatn frá því um 1970, en henni var sáð í Hólmsheiði þegar þar var verið að planta skógi. Borgþór segir að svo lengi sem lúpínan hafi land að nema haldi hún áfram að breiða úr sér.

Hún taki að hörfa á höfuðborgarsvæðinu eftir 20-30 ár og skilji eftir graslendi með blómjurtum á borð við sóley og fífil. En á síðustu árum hafi birst nýr gestur sem komi í kjölfar lúpínunnar, en það er skógarkerfill, sem einnig breiðist hratt út í landi þar sem engin beit er.

Borgþór telur þess vegna að þegar lúpínan tekur að láta undan taki skógarkerfillinn við, og í stað bláu lúpínubreiðanna komi hvítar kerfilsbreiður. Sauðfé sé horfið af stórum svæðum á landinu, og þá standi ekkert í vegi fyrir lúpínunni og skógarkerflinum.

Lykillinn að þessum umdeilda dugnaði lúpínunnar eru gerlar sem hún hefur í rótunum, en þessir gerlar binda köfnunarefnið sem lúpínan vinnur úr loftinu. Einnig á hún auðvelt með að afla fosfórs úr jarðveginum, sem er nauðsynlegur plöntum til vaxtar. Lúpínan getur því vaxið nánast á berum grjóti og sandi án þess að fá þaðan annað en raka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka