Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands gefa mjög athyglisverða mynd af stöðu sjávarútvegsins. Hann segir það gefa augaleið að samdráttur verði í þorskveiðum.
"Skýrslan dregur fyrst og fremst fram hagfræðilegt mikilvægi þess að ná upp stærð þorskstofnsins. Það er auðvitað önnur hlið en sú sem Hafrannsóknastofnun dró fram í sínu mati." Hann segir það ekki síður mikilvægt sem fram komi í skýrslunni að ákveðin svæði muni finna meira fyrir samdrætti í veiðum en önnur. "Áhrifin eru mjög mismunandi. Auðvitað eru áhrifin almennt mikil á þjóðarbúið. Hins vegar kemur það glögglega fram að hin neikvæðu áhrif af samdrætti aflans munu dreifast mjög misjafnt á herðar íbúa landsins. Það er ekki einu sinni þannig að við getum talað um að þetta sé áfall fyrir sjávarbyggðirnar almennt. Áhrifin eru líka mismunandi eftir því hversu háðar byggðirnar eru þorskveiðum sérstaklega."
Einar segir ríkisvaldið verða að bregðast við þeim vanda sem muni skapast í þeim byggðum þar sem þorskveiðarnar eru hvað mikilvægastar. "Því auðvitað blasir það við mönnum að það verður samdráttur í þorskveiðum á næsta fiskveiðiári."
Sjávarútvegsráðherra segir þess ekki langt að bíða að gefið verði út hve mikið verði heimilað að veiða af þorski á næsta fiskveiðiári. Hann treysti sér hins vegar ekki til að nefna neinar dagsetningar.