Góð þátttaka og veiði var í dorgveiðikeppni, sem leikjanámskeiðin í Hafnarfirði stóðu fyrir við Flensborgarbryggju í gær fyrir börn á aldrinum 6 til 12 ára. 282 börn tóku þátt í keppninni og er talið að um 300 fiskar hafi veiðst. Furðufiskur ársins var valinn þaragrænn sæsnigill.
Veitt voru verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sætið, fyrir flestu fiskana og þann stærsta og fyrir furðufisk ársins. Sigmar Ólafsson 8 ára veiddi flestu fiskana eða 8 talsins, í öðru sæti var Katrín Helga Ólafsdóttir 10 ára með 7 fiska og jöfn í þriðja sæti voru Freyja Fannberg Þórsdóttir og Máni Ingason með 5 fiska. Í flokknum þyngsti fiskurinn var Jóhann Alexander Ólsen Pálmason með þyngsta fiskinn sem var 357 gramma koli. Sigurvegararnir fengu bikar og veiðistöng frá Veiðibúðinni við lækinn í verðlaun.