Borgarráð samþykkti í 4 atkvæðum gegn 3 samning um raforkusölu Orkuveitu Reykjavíkur til hugsanlegs álvers Norðuráls Helguvíkur sf. í Helguvík en stjórn Orkuveitunnar staðfesti samninginn í byrjun mánaðarins.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs lögðu fram bókanir þar sem lýst er andstöðu við samninginn en á mismunandi forsendum. Fulltrúar Samfylkingarinnar sögðu óráðlegt, að samþykkja samning um raforkusölu til álvers í Helguvík á meðan ekki lægi fyrir hvort Orkuveitan yrði bundin af samningi um sölu 200 MW til stækkunar álversins í Straumsvík. Fulltrúi VG segir í sinni bókun, að samningurinn sé hluti af ríkjandi stóriðjustefnu sem VG hafi barist gegn um langa hríð. Ekki verði séð að álbræðsla í Helguvík, með tilheyrandi mengun, náttúruspjöllum og efnahagsáhrifum sé brýnasta verkefni forríkrar þjóðar.
Áheyrnarfulltrúi Frjálslynda flokksins lét bóka, að það væru óviðunandi vinnubrögð að leggja fyrirhugaðan orkusölusamning fyrir borgarráð þegar meginforsendur samningsins lægi ekki fyrir, þ.e. orkusöluverðinu væri haldið leyndu.
Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segir, að hafa verði í huga, að Orkuveitan hafi mikið fleiri virkjunarkosti til skoðunar en þá, sem þyrfti til vegna Helguvíkur og/eða Straumsvíkur. Þá sé einnig ljóst, að með stærri bortækjum og nýjungum í borun hafi svæðið, sem verið sé að vinna úr, stækkað verulega.