andri@mbl.is
Sjö börn hafa verið nálægt drukknun í sundlaugum landsins undanfarin þrjú ár. Forstöðumaður Forvarnarhúss Sjóvár telur stefna í óefni og grunar að víða sé pottur brotinn þegar kemur að því að fylgja öryggisreglum – ekki síst á landsbyggðinni. Dæmi eru um að einn starfsmaður sinni öllum störfum á sundstað þrátt fyrir að gestir séu á fimmta hundrað.
Í kjölfar þess að fjögur börn hafa verið nærri drukknun á sundstöðum það sem af er ári hafa vaknað umræður um öryggisatriði við laugarnar. Á undanförnum dögum hafa nokkrir starfsmenn sundstaða haft samband við Herdísi Storgaard, forstöðumann Forvarnarhúss Sjóvár, vegna þessa og lýst aðstæðum.
"Menn eru hreinlega að segja mér að þeir séu jafnan einu starfsmennirnir á sundstöðum í sínu sveitarfélagi. Í reglum um öryggi á sundstöðum og við kennslulaugar segir hins vegar að þar eigi jafnan að vera einn starfsmaður sem sinni laugargæslu, þ.e. þegar um er að ræða minni sundlaug – það þýðir 100% eftirlit með gestum," segir Herdís sem telur það óhugsandi ef starfsmaður þarf að ganga í öll störf. "Spurningar sem fylgja eru því oftast nær um hvar ábyrgðin liggi ef eitthvað kemur fyrir."
Herdís nefnir jafnframt dæmi um að liðna helgi hafi einn starfsmaður verið við gæslu við sundlaug þar sem komu um fimm hundruð gestir. Það segir hún algjörlega ótækt og bendir á að þó svo að oft geti heppnin bjargað sé hún ekki alltaf með í för.
Öryggisreglurnar voru settar árið 1994, endurskoðaðar 1999 og eru aftur til endurskoðunar um þessar mundir. Herdís sat í öryggisnefndinni árið 1999 líkt og núna og segir ekki fara á milli mála hvaða öryggiskröfur eru gerðar til rekstraraðila sundlauga. Til að mynda skal alla vega einn laugarvörður fylgjast með 25 m sundlaug en alla vega tveir verðir ef um er að ræða 50m laug eða stærri.
Sjá nánar í Morgnblaðinu í dag.