Um hundrað manns tóku þátt í kertavöku í útjaðri Akureyrar í kvöld til að minnast hundsins Lúkasar, sem drepinn var á hrottalegan hátt fyrir tæpum tveimur vikum. Flestir þeirra sem mættu komu með hunda sína, og höfðu einhverjir á orði að ekki væri síður um að ræða mótmælastöðu gegn svo hrottalegri meðferð á dýrum en minningarathöfn um Lúkas.
Álíka minningarathafnir fóru einnig fram í Reykjavík og í Hveragerði.
Lögreglan á Akureyri frétti fyrst af málinu í dag en það hefur verið kært og er rannsókn málsins á frumstigi hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri.
Mikið hefur verið skrifað um málið á spjallsíðum og bloggum og hafa gengið þær sögur að myndband sé til af atburðinum. Ekki er vitað til þess að þetta myndband hafi nokkurs staðar komið fram, þá hefur einn hinna meintu gerenda verið nafngreindur og hafa borist alvarlegar hótanir á vefsíður sem hann tengist.