Jón Ásgeir sýknaður en Tryggvi og Jón Gerald sakfelldir

Dómarar í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Dómarar í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/RAX

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Jón Ásgeir Jóhannesson af þeim ákæruliðum í Baugsmálinu, sem dómurinn hafði áður vísað frá en Hæstiréttur gert dómnum að taka til efnismeðferðar. Jón Gerald Sullenberger var dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi og Tryggvi Jónsson var dæmdur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann hafði áður verið dæmdur í 9 mánaða skilorðbundið fangelsi en sá dómur var tekinn upp og þyngdur.

Í fyrri umferð málsins í maí sl. vísaði héraðsdómur frá ákæruatriðum á hendur Jóni Ásgeiri, sem snéru að meintum ólögmætum lánveitingum Baugs til félaga og einstaklinga tengdum Jóni Ásgeiri. Dómurinn hefur nú komist að þeirri niðurstöðu, að í fimm af ákæruliðunum felist ekki brot gegn hlutafélagalögum.

Dómurinn, telur að það atferli, sem lýst er í fjórum ákæruliðum brjóti gegn hlutafélagalögunum. Hins vegar sé verulegur brestur á að refsiheimild 104. gr. þeirra laga sé svo skýr að hægt sé að dæma einstakling á grundvelli hennar. Því sé óhjákvæmilegt að sýkna Jón Ásgeir.

Ákæru á hendur Tryggva fyrir fjárdrátt var vísað frá í maí en Hæstiréttur lagði fyrir héraðsdóm að taka efnislega afstöðu til þeirra liða. Héraðsdómur kemst nú að þeirri niðurstöðu, að Tryggvi hafi gerst sekur um fjárdrátt þegar hann lét Baug greiða kreditkortareikninga sem að hluta til voru vegna einkaneyslu hans. Segir dómurinn, að Tryggva hefði borið, að kalla eftir sundurliðun frá Jóni Gerald Sullenberger og sjá til þess að einka­útgjöld hans væru færð sem slík og það sem tilheyrði félaginu fært á viðeigandi hátt. Það hafi hann ekki gert og því gerst sekur um fjárdrátt að upphæð rúmlega 547 þúsund krónur en alls var Tryggvi ákærður fyrir að draga sér tæpar 1,3 milljónir króna.

Um er að ræða kaup á vörum í GAP tískuvöruverslun fyrir sem nemur 7330 krónum, kaup á sundlaugarskóm fyrir 7295 krónur, kaup á vörum í GAP Kids og Alfs Golf Shop fyrir samtals 166.317 krónur, kaup á garðvörum og íhlutum hjá Sears Roebuck fyrir samtals 342.339 krónur og greiðsla vegna aðgöngumiða í Walt Disney World að fjárhæð 24.704 krónur.

Þá er Jón Gerald Sullenberger fundinn sekur um að hafa aðstoðað Tryggva og Jón Ásgeir við að rangfæra bókhald Baugs með því að búa til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum. Segir í dómnum, að Jón Gerald hafi viðurkennt að hafa skrifað kreditreikning samkvæmt beiðni Tryggva og sent honum á faxi. Segir dómurinn sannað, að reikningurinn hafi verið notaður í bókhaldi Baugs og með hliðsjón af reynslu Jóns Geralds og störfum hafi honum hlotið að vera ljóst að reikningurinn myndi verða notaður í bókhaldinu.

Samkvæmt ákvörðun dómsins um málskostnað falla 400.000 króna málsvarnarlaun Jóns Ásgeirs á ríkið. Tryggvi Jónsson þarf að greiða þriðjung af 400.000 króna málsvarnarlaunum en Jón Gerald Sullenberger er dæmdur til að greiða 8,1 milljón króna í málskostnað.

Dómur í Baugsmálinu

Verjendur sakborninga í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Verjendur sakborninga í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert