Bæjarstjórn Kópavogs hefur tekið ákvörðun um að leggjast gegn því að umhverfisráðherra veiti Ríkeyju Pétursdóttur, hárgreiðslumeistara í Kópavogi, undanþágu frá skilyrðum um starfsleyfi. Tillaga þess efnis var samþykkt með sex atkvæðum meirihlutans gegn fimm atkvæðum minnihlutans.
Ríkey hefur allt frá árinu 2003 reynt að fá starfsleyfi til að reka hárgreiðslustofu með einum hárgreiðslustól á heimili sínu. Sveinn Guðmundsson, lögmaður Ríkeyjar, segir að ótrúlegt hafi verið að fylgjast með afgreiðslu bæjarstjórnarfundarins á málinu. "Ég hef bara aldrei séð annað eins á ævi minni," segir Sveinn. Hann segir að nú bíði hann og umbjóðandi hans eftir að ráðherra afgreiði undanþágubeiðnina, það er hvort hann telji sér skylt að neita um undanþágu frá starfsleyfi Ríkeyjar, vegna neikvæðrar umsagnar bæjarstjórnarinnar. Sveinn segir málið ætíð hafa snúist um pólitík. Hann segir að við afgreiðslu málsins hafi hvorki verið tekið tillit til stjórnarskrárvarins eignarréttar umbjóðanda síns né afgreiðslu sambærilegra mála á landsvísu. "Þetta er líka valdníðsla."
Ómar Stefánsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í meirihluta bæjarstjórnar, segir að ákvörðunin hafi verið byggð á því sama og áður; mikil mótmæli hafi verið í hverfinu, sem sé skipulagt sem íbúðarhverfi. Hann segir það mikinn misskilning að málið hafi dregist á langinn í meðförum yfirvalda í Kópavogi.
Guðríður Árnadóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í minnihluta bæjarstjórnar, segir að fulltrúar minnihlutans hafi greitt atkvæði gegn neikvæðri umsögn bæjarstjórnar. Þeir hafi talið hagsmuni Ríkeyjar vega þyngra en hagsmuni nágranna hennar. Hún segir málið langt frá því að vera pólitískt. "Það kom mér á óvart hvernig atkvæðagreiðslan skiptist í pólitískar línur. Þetta kemur pólitík ekkert við, heldur er þetta spurning um að vega og meta sjónarmið beggja og greiða atkvæði samkvæmt því."