Björgunarsveitir á hálendinu í sumar

Björgunarsveitarmenn að leggja í hann í dag
Björgunarsveitarmenn að leggja í hann í dag

Í dag halda fjórar björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar upp á hálendið en í sumar verður Slysavarnafélagið Landsbjörg með slysavarnaverkefni á svæðinu og er þettaannað árið sem það er gert.

Verkefnið felst í því að félagið staðsetur fjórar björgunarsveitir í fimm hópum uppi á hálendinu frá 29. júní til 12. ágúst. Hálendinu verður skipt gróft upp i fjögur svæði; Kjalvegur og nágrenni, Sprengisandsleið, Fjallabaksleiðir og svæðið norðan Vatnajökuls, og verður ein björgunarsveit staðsett á hverju þeirra nema að Fjallabaki þar sem tveir hópar verða á ferðinni.

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu kemur fram að á hverju ári verða alltof mörg slys á hálendi Íslands sem aðallega má rekja til vanþekkingar og lélegs búnaðar þeirra sem um það fara.

Undanfarin ár hefur margsinnis verið leitað að ferðamönnum og árlega hafa ferðamenn látist á hálendinu. Með því að staðsetja björgunarsveitir á hálendinu verður hægt að bregðast fljótt við ef aðstoðar er þörf.

Síðastliðið sumar var mikið um hvers kyns aðstoð við ökumenn, þeim fengu leiðbeiningar og mörgum var bent á að þeir væru á bílum sem væru ekki búnir fyrir hálendisferðir. Einnig var nokkuð um að ferðamenn lentu í vandræðum við óbrúaðar ár. Allmörg stærri verkefni, eins og umferðarslys og banaslys hafa komið til kasta björgunarsveitamanna á hálendinu til að mynda þegar hrundi úr íshelli í fyrrasumar með þeim afleiðingum að ferðamaður lést.

Neyðarlínan verður upplýst um stöðu og staðsetningu björgunarsveitanna sem taka þátt í verkefninu. Það mun að hluta til verða gert með ferilvöktun í gegnum TETRA fjarskiptakerfið auk þess sem Landmælingar Íslands hafa nú veitt björgunarsveitum aðgang að kortagrunni sínum. Í undirbúningi er frekara samstarf LMÍ og Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Björgunarsveitir víðs vegar af landinu munu taka þátt í verkefninu með því að leggja til mannskap og búnað í eina viku.

Þeir sem þurfa að ná á björgunarsveitirnar geta gert það í gegnum Neyðarlínuna 112.

Umferðarstofa, Sjóvá, N1, Toyota, Avis og Höldur styrkja verkefnið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert