Eimskip, rekstaraðili ferjunnar Herjólfs, hefur lagt fram nýtt tilboð til vegamálastjóra um kostnað vegna aukaferða Herjólfs. „Boltinn er hjá Vegagerðinni" segja Eimskipsmenn sem gera tilboðið á grundvelli viðræðna við áhöfn Herjólfs.
Samkvæmt heimildum mbl.is hafa verið stíf fundahöld í dag vegna málsins. Vegamálastjóri og samgönguráðherra hittust og ræddu málefni Herjólfs í morgun og eftir hádegi hittust forsvarsmenn Eimskip og vegamálastjóri. Þar lagði Eimskip fram nýtt tilboð vegna kostnaðar á aukaferðum Herjólfs milli Eyja og lands.
Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskip, vildi ekki tjá sig um hvað fælist í tilboðinu en segir að það sé í fullri sátt við starfsmenn Herjólfs. „Við erum búin að fara yfir málin og gerum okkar tilboð á grundvelli viðræðna okkar við áhöfnina sem er full sátt við."sagði Guðmundur og segir að nú sé boltinn hjá Vegagerðinni sem nýtir helgina í að fara yfir tilboðið.
Ekki hefur náðst í Jón Rögnvaldsson,vegamálastjóra.