Gera athugasemdir við frummatsskýrslu um álver í Helguvík

Náttúruverndarsamtök Íslands telja að frummatsskýrsla Norðuráls um álver í Helguvík standist ekki þær kröfur sem gerðar eru til framkvæmdaraðila samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda.

Náttúruverndarsamtök Íslands benda á vef sínum einkum á tvennt:
1) Meta verður tengdar framkvæmdir (orkuver og raflínulagnir) sameiginlega með álverinu. Að öðrum kosti fæst ekki heildarmynd af umhverfisáhrifum þess og framkvæmda sem óhjákvæmilega tengjast. Ekki liggur ekki fyrir mat á sumum þeirra framkvæmda.

2) Umfjöllun Norðuráls um útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá álverinu er ófullnægjandi og á köflum villandi. Gera verður kröfu um betri og nákvæmari upplýsingar um hvort framkvæmdin standist lagalegar skuldbindingar Íslands samkvæmt Kyoto-bókunni. Ennfremur verður að vera ljóst að bygging álversins standist þær pólitísku skuldbindingar sem Ísland hefur gengist undir, að því er segir á vef Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Á vef Landverndar kemur fram að frummatsskýrslan gefi þokkalega mynd af þeim umhverfisáhrifum sem hún fjallar um en því miður fjallar hún aðeins um lítið brot af þeim umhverfisáhrifum sem óhjákvæmilega myndu fylgja álveri í Helguvík.

„Því telur Landvernd frummatsskýrsluna eina og sér alsendis ófullnægjandi til frekari málsmeðferðar og álitsgjafar af hálfu opinberra aðila og beinir því til Skipulagsstofnunar að fresta frekari málsmeðferð þar til frummatsskýrslur áformanna í heild sinni verða kynntar fyrir almenningi. Nánast ekkert er fjallað um orkuflutninga og virkjanir þó svo að þessir hlutar áformanna séu líklegir til þess að valda mestu umhverfisáhrifunum."

Vefur Landverndar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert