Í tilkynningu frá umhverfissamtökunum Húsgull kemur fram „að vegna sérkennilegra viðbragða forstjóra Skipulags ríkisins og forstjóra Náttúrufræðistofnunar við metnaðarfullum og ábyrgum áformum um að endurheimta landgæði og stöðva jarðvegseyðingu í sveitarfélaginu Norðurþingi, er rétt að upplýsa eftirfarandi:
1. Ríkisforstjórunum er greinilega ekki kunnugt um orsök og afleiðingar jarðvegseyðingar. Háskóli Sameinuðu þjóðanna hefur þó nýlega sent frá sér skýrslu sem sýnir fram á, að hnignun og hrun vistkerfa í kjölfar stækkandi eyðimarka er eitt mesta umhverfis og félagslegt vandamál jarðarbúa. Stækkun og nýmyndun eyðimarka er bein afleiðing rányrkju og hnignun skóga.
2. Um 96% skóglendis og um 50% gróðurs hefur eyðst á Íslandi frá landnámi. Þannig hafa losnað 1600 milljón tonn af CO2 við jarðvegs – og gróðureyðingu síðustu 1000 ár eða 1,6 milljón tonn á ári. Álver sem framleiðir 200 þúsund tonn af áli á ári losar 0,3 milljón tonn af CO2 á ári.
3. Það er hægt að jafna út losun CO2 með uppgræðslu og skógrækt. Mestur ávinningur fæst þegar eyðimörk er breytt í skóglendi. Skógrækt hefur einnig margvíslegan annan ávinning í för með sér.
4. Ísland er versta dæmi í nútíma um tap jarðvegs og gróðureyðingu. Hnignun í fjölbreytileika tegunda vegna jarðvegseyðingar og stækkun eyðimarka er hvergi skráð hjá stofnunum, eyðimerkurmyndunin hefur ekki verið sett í umhverfismat og hlítir engu skipulagi. Náttúrufræðistofnun og Skipulagsstofnun virðast aftur á móti leggja áherslu á verndun og varðveislu eyðimarka og hálf hruninna vistkerfa og reyna að stöðva uppgræðslu og endurheimt landgæða á forsendum einhvers skipulags
5. Það er tímaskekkja að vernda eyðimerkur og umhverfissamtök og áhugafólk í Norðurþingi mun ekki sætta sig við að komið sé í veg fyrir endurheimt fyrri landgæða í sveitarfélaginu með forsjárhyggju ríkisstofnana.
6. Landgræðslan og Skógrækt ríkisins búa yfir kunnáttu, reynslu, þekkingu, mannafla og vilja til að gera það mögulegt að kolefnisjafna mengun innan sveitarfélagsins þrátt fyrir tilkomu stóriðju á Norðurlandi. Því miður er enginn skortur á eyðimörkum í Norðurþingi en þar eru margar hendur tilbúnar til verksins.
7. Umhverfissamtökin HÚSGULL hvetja alla til að kynna sér málin með opnum hug, án fordóma og sérfræðingahyggju. Jafnframt eru allir velkomnir á uppgræðslusvæði HÚSGULLS á Hólasandi. Uppgræðsla Hólasands er til vitnis um hvað hægt er að gera í uppgræðslu. Þar er 130 ferkílómetra eyðimörk að breytast í gróðurlendi og þar vex nú birki eins og fyrrum."