Morðhótunum rignir yfir ungan mann

Frá Akureyri í gærkvöldi.
Frá Akureyri í gærkvöldi. mbl.is/Skapti
Eftir Hjálmar S. Brynjólfsson hsb@mbl.is Á spjallrásum nokkurra heimasíðna hefur undanfarna daga farið fram heiftúðug umræða um meint dýraníð. Morðhótunum og svívirðingum hefur rignt inn á spjallrásirnar undir dulnefnum, og á bloggsíðu ungs manns. Honum er gefið að sök að hafa drepið hundinn Lúkas, sem var af gerðinni Chinese Crested, með því að sparka í hann aðfaranótt 17. júní á planinu við húsnæði Eimskips á Oddeyri.

Vitni að atburðinum hafa gefið sig fram við fjölmiðla og einnig við eiganda hundsins, Kristjönu M. Svansdóttur: „Eitt þeirra hafði samband við mig og mér skilst að fleiri hafi í kjölfarið gefið sig fram. Ég tel samt að best sé að ræða við lögregluna og kýs að staðfesta hvorki eitt né neitt," sagði hún við Morgunblaðið.

Í samtali við blaðamann í gær neitaði ungi maðurinn allri sök. „Það er verið að ljúga upp á mig. Ég kom ekki nálægt þessu. Ég var ekki einu sinni á Akureyri þegar þetta á að hafa gerst," sagði hann. „Ég bara frétti af þessu í gærkvöldi. Foreldrar mínir hringdu og sögðu mér að það hefði verið hringt í mig frá lögreglunni. Svo hefur eigandi hundsins hringt í mig. Mér hefur líka verið hótað í símtölum og sms-skeytum."

Á spjallsíðum kemur fram að upptaka sé til af atburðinum. Lögreglan vildi ekki tjá sig um það, en skv. upplýsingum blaðsins eru a.m.k. ekki öryggismyndavélar á staðnum.

Fjöldi fólks, margir með hunda, kom saman á Akureyri, í Reykjavík og Hveragerði í gærkvöldi á kertavökum sem haldnar voru til minningar um hundinn Lúkas.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert