„Með verstu blæðingum sem ég hef upplifað“

Dekkjahöllin á Akureyri átti fullt í fangi með að hreinsa …
Dekkjahöllin á Akureyri átti fullt í fangi með að hreinsa bíla sem lentu í tjöruslettum og steinkasti. Gríðarlegur umferðarþungi og hár hiti olli því að nýlagður vegur losnaði upp svo Vegagerðin átti erfitt um vik. mbl.is/Skapti

Fjölmargir bílar urðu fyrir skemmdum vegna tjöru og grjóts þegar nýleg klæðning tók að gefa sig á veginum norðan Akureyrar á föstudag. Að sögn Kristjáns Þorkelssonar, starfsmanns hjá Vegagerðinni, var um samspil hita og umferðarþunga að ræða og kom atvikið þeim algjörlega í opna skjöldu.

„Þessi kafli var klæddur um síðustu helgi og búið að sópa hann. Við fórum yfir hann á hádegi og allt virtist vera í góðu lagi svo við bjuggumst engan veginn við þessu.“

Um er að ræða tæplega 10 km langan vegarkafla frá Lónsbakka, við bæjarmörk Akureyrar, út að Þelamörk. Kristján segir að atburðarásin hafi verið mjög hröð, um hálftvöleytið hafi byrjað „blæðingar“ í malbikinu, þ.e.a.s. tjaran fór að koma upp í gegnum klæðninguna. Brugðist hafi verið skjótt við og kallaðir til bílar til að dreifa salla á veginn og hefta „blæðinguna“, en á þeim tæpa klukkutíma sem beðið var eftir bílunum hafi allur vegarkaflinn losnað upp. Umferðin hafi verið afar þung og aðstæður erfiðar.

„Við náðum tökum á þessu um sexleytið en hættum ekki fyrr en klukkan átta. Ég hef aldrei lent í öðru eins, þetta var alveg hræðilegt,“ segir Kristján. Fylgst verður með veginum alla helgina til þess að tryggja að ástandið endurtaki sig ekki.

Ekki er vitað hve margir bílar áttu leið um svæðið meðan ástandið var sem verst, en þó er ljóst að um mikinn fjölda er að ræða að sögn Pálma Þorsteinssonar, rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Akureyri. „Almennt hefur fólk tekið þessu með ró enda skilur það að þetta er bara ólán og aðstæður sem erfitt var að ráða við. En okkur þykir þetta óskaplega leiðinlegt.“ Samið hefur verið við Dekkjahöllina á Akureyri um hreinsun á bílum þeirra sem eftir því leita og er fólki bent á að leita til Vegagerðarinnar, sem skrifi þá út beiðni fyrir hreinsuninni.

Að sögn Jóhanns Jónssonar hjá Dekkjahöllinni er einkum um að ræða steina sem hafa skotist inn í hjólaskálar bílanna, svo ískrar í bremsum, auk þess sem bílarnir eru útataðir í tjöru. „Við vorum að fram eftir kvöldi í gær og strax við opnun í dag var komin góð röð á planið fyrir utan,“ segir Jóhann. Þrátt fyrir allt sé samt hljóðið í fólkinu nokkuð gott enda sjái enginn ástæðu til að æsa sig þegar veðrið er svo gott. „Ætli sólin sé ekki að bjarga þessu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert