Áhugamenn um póker hafa nú tekið sig saman og stofnað Pókersamband Íslands (PSÍ) sem meðal annars er ætlað að stuðla að lögleiðingu áhugamannapókers á Íslandi, að því er segir í lögum félagsins. Ekki sé um að ræða atvinnupóker eða rekstur spilavíta.
Fyrr í mánuðinum stöðvaði lögregla fyrsta opinbera pókermótið sem haldið hefur verið hérlendis, á grundvelli almennra hegningarlaga. Vinsældir pókers hafa aukist töluvert undanfarið og er hart deilt á réttmæti laga gegn leiknum.