Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geysis Green Energy sem keypt hefur rúm 43% eignarhluta í Hitaveitu Suðurnesja, telur útilokað að Hafnarfjarðarbær geti eignast 60% í HS eins og Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar, segir að stefni í. Eysteinn Jónsson, bæjarfulltrúi minnihluta A-listans í Reykjanesbæ, sem nú á tæp 40% í HS, vill að sveitarfélagið nýti forkaupsrétt sinn á 15,2% hlut ríkisins og jafnframt 28,4% hlut þeirra sjö sveitarfélaga sem selt hafa Geysi Green.
Eftir helgi verður aukafundur í bæjastjórn þar sem bæjarfulltrúar minnihlutans bera upp forkaupsréttartillöguna.
„Ég held að það hafi verið farið af stað með sölu á hlut ríkisins í HS án þess að ígrunda málið nægilega vel,“ segir hann. „Miðað við núverandi lagaumhverfi fæ ég ekki séð hvernig hagur neytandans er tryggður með því að einkafyrirtæki í einokunaraðstöðu reki hitaveitu. Reykjanesbær verður að auka sína hlutdeild í HS enda þarf fyrirtækið að vera í eign opinberra aðila. Ef Hafnarfjarðarbær myndi eignast 60% þætti mér það ekki sérstaklega góð staða, enda er stærsta markaðssvæði hitaveitunnar á Reykjanesi.“
„Get ekki séð þetta gerast“
Um þennan stóra hlut Hafnarfjarðarbæjar sem forseti bæjarstjórnar boðar segir Ásgeir Margeirsson að um sé að ræða tæknilega mögulegan hlut, sem þó sé útilokað að verði að veruleika miðað við það sem sagt hafi verið. „Ég get ekki séð þetta gerast,“ segir hann. „Ef Reykjanesbær og Hafnarfjarðarbær ætla að bítast um forkaupsrétt bæði á samningi okkar við ríkið og sveitarfélögin, þá eignast Reykjanesbær um 72% en Hafnarfjarðarbær um 28%. Hafnarfjarðarbær fær því aldrei 60% hlut því Reykjanesbær hefur lýst því yfir að hann muni neyta forkaupsréttar ef einhver annar ætli að gera það.
Tæknilega gæti það gengið upp að Hafnarfjörður eignaðist 60% – ef bærinn neytti forkaupsréttar síns en Reykjanesbær ekki.“