Búrhvalshræ, sem fannst í Stokkseyrarfjöru fyrir nokkru, var í vikunni dregið langt út á skerjagarð með gröfu þar sem hræið var kramið og stappað og reynt var að fergja það með grjóti.
Fram kemur á vefnum Stokkseyri.is, að ætlunin hafi verið að grafa hræið á háfjöru langt út í skerjagarði en grafan mátti síns lítils í baráttunni við hið ævaforna Þjórsárhraun.
Ekki voru allir á eitt sáttir með örlög hvalsins og vildu hann á brott úr fjörunni þar sem búast má jafnvel við því að hann birtist þar í einhverjum af næstu flóðum.