Landsmenn eru bjartsýnir á að launamunur kynjanna muni minnka á næstu fjórum árum, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup, sem birtur var í dag. Telja 46% landsmanna að launamunurinn muni minnka, en einungis átta af hundraði telja að hann muni aukast. Þjóðin var aftur á móti svartsýnni á þetta 1999, er Gallup spurði einnig, en þá töldu 36% að munurinn myndi minnka á næstu fjórum árum.
Gallup hefur spurt í upphafi hvers kjörtímabils frá 1995 um afstöðu landsmanna til minnkaðs launabils kynjanna. Er niðurstaðan nú sú sama og hún var í upphafi síðasta kjörtímabils, árið 2003.
"Þegar spurt er um kjörtímabilið sem var að ljúka telja 27% að launamunur kynjanna hafi minnkað, 58% að hann hafi staðið í stað og 14% að hann hafi aukist. Þannig virðist tilfinning fólks fyrir minnkandi launamun á síðasta kjörtímabili vera minni nú heldur en eftir alþingiskosningarnar 2003, en mun nær því sem fólki fannst árið 1999," segir í þjóðarpúlsi Gallup.
"Nokkur munur er á afstöðu kynjanna því 38% karla telja að launamunurinn hafi minnkað á móti 17%kvenna, á meðan 18% kvenna og 11%karla telja hann hafa aukist. Karlar eru einnig bjartsýnni um framvinduna á komandi kjörtímabili, því 53% þeirra telja að launamunurinn muni minnka en 40% kvenna telja að launamunur kynjanna komi til með að minnka."