Ölvun og ólæti á tjaldsvæði í Fljótshlíð

Hópur unglinga gerði aðsúg að umsjónarmanni tjaldstæðis á Hellishólum í Fljótshlíð aðfaranótt laugardags. Fram kom í fréttum Útvarpsins, að mikil ölvun og ólæti voru á svæðinu. Stóð lögreglan á Hvolsvelli vaktina fram á morgun og tók 2 fyrir ölvunarakstur.

Laila Ingvarsdóttir, einn af eigendum Hellishóla, sagði við Útvarpið, að upp úr miðnætti hafi komið til slagsmála á tjaldsvæðinu, einn unglingurinn hafi keyrt drukkinn út í á og annar hafi velt bíl. Þegar umsjónarmaður tjaldstæðisins kom til að reyna að skakka leikinn réðust unglingarnir á hann en umsjónarmaðurinn var með son sinn með sér og náði hann að skakka leikinn.

Lögreglumenn á Hvolsvelli voru kallaðir til. Í gær ákváðu síðan eigendur svæðisins að reka hópinn í burt og þaðan voru allir farnir síðdegis í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert