Reyndi að stinga lögreglu af

Ökumaður á bifhjóli mældist á 133 km hraða á Reykjanesi í nótt þar sem hámarkshraði er 50 km. Maðurinn reyndi að stinga lögreglu af en tókst ekki. Hann var sviptur ökuréttindum á staðnum. Í ljós kom að hann hafði ekki réttindi til þess að aka bifhjóli og segir lögreglan á Suðurnesjum, að hann megi búast við hárri sekt.

Þá var ökumaður stöðvaður á Hafnarvegi í Reykjanesbæ og við skoðun kom í ljós að hann er sviptur ökuréttindum. Hann hafði jafnframt sett númeraplötur af öðrum bíl á sinn þar sem hann var ekki á númerum og ótryggður.

Þrír ökumenn voru teknir fyrir ölvun við akstur hjá embættinu í nótt. Þá var mikið um of hraðan akstur á Suðurnesjum í gær. Átta ökumenn voru kærðir á Reykjanesbrautinni og sá er ók hraðast mældist á 139 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur á Skagabraut í Garði og mældust þeir á 73 og 89 km hraða þar sem hámarkshraðinn er 50 km/klst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert