Lagabreytingin þýðir að atvinnutekjur ellilífeyrisþega og vistmanna 70 ára og eldri hafa ekki áhrif á upphæð ellilífeyris, tekjutryggingar, heimilisuppbótar, vasapeninga eða vistunarframlags frá Tryggingastofnun né heldur greiðsluþátttöku þeirra í dvalarkostnaði á dvalar- og hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Það sama gildir um atvinnutekjur maka sem náð hefur 70 ára aldri, en fram að þessu hafa þær haft áhrif á greiðslur bóta.
Tryggingastofnun ríkisins hefur sent bréf til rúmlega 26 þúsund ellilífeyrisþega sem eru eldri en 70 ára. Ágúst Þór Sigurðsson, forstöðumaður lífeyristryggingasviðs TR, segir að lagabreytingin muni þó aðeins hafa áhrif á greiðslur til um 5.000 einstaklinga miðað við stöðuna eins og hún er í dag. Hann segir að þetta fólk þurfi ekki að hafa samband við Tryggingastofnun til að endurskoða tekjuáætlun sína. Ef hins vegar fólk kjósi að fara út á vinnumarkað til að afla sér launatekna eftir 1. júlí sé skynsamlegt að hafa samband við TR og skila inn nýrri tekjuáætlun. Það tryggi að hærri bætur skili sér strax til viðkomandi. Sama eigi við um fólk sem verður sjötugt síðar á árinu og kjósi að halda áfram á vinnumarkaði.
Þegar lagafrumvarpið var til umfjöllunar á Alþingi kom fram að áætlað er að árlegur kostnaður ríkisins vegna frumvarpsins verði á bilinu 560–700 milljónir kr. Þar sem lögin taka gildi á miðju ári er gert ráð fyrir að útgjöld á þessu ári verði helmingur þessarar upphæðar.
Ágúst sagði að þegar menn fóru af stað með þessa breytingu hefðu margir haft þá tilfinningu að þetta væri tiltölulega einföld breyting. Í reynd komi þessi breyting talsvert misjafnlega út fyrir fólk. Fyrir suma skipti þetta miklu máli, talsverðu fyrir aðra, en líka engu máli fyrir stóran hóp. Þetta geti t.d. bætt hag öryrkja sem eiga maka eldri en 70 ára sem eru að afla tekna.
Aðspurður sagði Ágúst að eldri borgarar sem hafi mjög háar atvinnutekjur hagnist á þessari breytingu. Hann tók sem dæmi að einstaklingur sem í dag hefði 3 milljónir í eftirlaun frá fyrirtæki eða stofnun (skilgreindar sem atvinnutekjur) fengi engar tryggingabætur í dag. Eftir þessa breytingu fengi hann u.þ.b. 126 þúsund krónur á mánuði í tryggingabætur.