Byggðastofnun segir, að stofnunin hafi þann 7. maí leyst til sín eignarhlut Kagrafells ehf. í rækjuverksmiðjunni Miðfelli á Ísafirði.
Stofnunin segir að um hafi verið að ræða lið í skuldaskilum Kagrafells við Byggðastofnun. Um hreinan formgerning hafi verið að ræða, og engir fjármunir skipt um hendur í þessum viðskiptum enda hafi Byggðastofnun á þeim tíma verið fullkunnugt um langvarandi erfiðleika í rekstri Miðfells.
Kagrafell var eignarhaldsfélag um hlutafé í rækjuverksmiðjunni Miðfelli, og á ekki aðrar eignir. Óskað var eftir gjaldþrotaskiptum á Miðfelli í síðustu viku.