Það er ekki að merkja þegar komið er til Stykkishólms að áfall hafi riðið yfir byggðina árið 2003 er allar hörpudiskveiðar voru bannaðar á Breiðafirði. Grétar Pálsson, formaður bæjarráðs, segir fjölbreytni í atvinnulífi hafa auðveldað bæjarbúum að takast á við það áfall. Þá hafi sú ákvörðun bæjaryfirvalda, að halda götumynd miðbæjarins í sem upprunalegastri mynd, átt mikinn átt í því að gera bæinn að vinsælli hlutaársbyggð.
Um sjötíu íbúðir í bænum eru nú í eigu einstaklinga sem ekki eiga lögheimili á staðnum. Er það mikil fjölgun frá því fyrir tíu árum þegar íbúðir í eigu utanbæjarmanna voru fimm til sex. Grétar segir bæjaryfirvöld líta þessa þróun mjög jákvæðum augum þar sem eigendur íbúðanna taki virkan þátt í bæjarlífinu. Þá hafi þeir unnið mikið starf bæði við endurbyggingu og viðhald gamalla húsa í bænum og í mörgum tilfellum gert fyrri eigendum þeirra kleift að flytja í nýrra á hentugra húsnæði.